Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Nemendur við framhaldsskóla hér á Íslandi gengu út í síðustu viku til að krefjast þess að breytingar verði gerðar á viðbragðsáætlunum allra skóla svo að tekið sé á kynferðisbrotum af sömu alvöru ef ekki meiri alvöru en öðrum ofbeldismálum. Kröfur þeirra eru í fyrsta lagi að meintum gerendum sé gert að víkja úr staðnámi þegar fram kemur kæra og að endurtekin brot leiði til endanlegrar brottvísunar úr skóla.

Í öðru lagi að kynjafræði sé gerð að skylduáfanga í öllum skólum þar sem fræða skal nemendur um mörk og samþykki sem forvörn gegn kynferðisbrotum. Einnig skuli fræða alla nemendur um hvert sé hægt að leita eftir að kynferðisbrot eiga sér stað.

Í þriðja lagi að kyn- og kynjafræðsla sé gerð skylda fyrir stjórn kennara og starfsfólk allra skóla og námskeið haldin með reglulegu millibili. Þar að auki sé kennurum gert skylt að sýna þolendum þolinmæði og veita þeim undanþágu frá mætingu og verkefnaskilum í bæði bóklegu og verklegu námi. Þar að auki að sálfræðingar innan skóla fái fræðslu um það hvernig eigi að bregðast við kynferðisafbrotum og leiðbeina jafnt þolendum og gerendum.

Í fjórða lagi að fjölbreytt úrræði standi nemendum til boða til að tilkynna um kynferðisbrot og það sé vel upplýst innan skólanna hvernig það sé gert. Allt eru þetta atriði sem bent var á í skýrslu sem skilað var inn í menntamálaráðuneytið fyrir þremur árum. Nú er ekki þörf á fleiri nefndum eða skýrslum heldur aðgerðum og það strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)