Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Hér hefur ítrekað verið rætt um gjaldtöku í samgöngumálum. Jafnvel hefur formanni Framsóknar verið gert það upp að ætla að leggja sérstakan skatt á fólk sem keyrir í gegnum göng, líkt og kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar hér í störfum þingsins í gær. Það er því greinilega ýmislegt sem þarf að fara yfir og leiðrétta.

Það er mikilvægt að halda til haga að þessar hugmyndir um nýja gjaldtöku í samgöngumálum eru ekki einkamál Framsóknar. Hugmyndir um veggjöld í umferðinni komu fyrst fram í áliti umhverfis- og samgöngunefndar við umfjöllun um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Undir álitið rituðu sjö nefndarmenn úr sex þingflokkum. Það er því langt því frá að þetta sé einkamál Framsóknar. Ég ítreka: Tillögur um gjaldtöku í umferðinni hafa verið samþykktar hér á Alþingi og er innviðaráðherra að framfylgja þeirri ákvörðun Alþingis. Það færi betur ef þingmenn og aðrir myndu kynna sér málefnin aðeins betur áður en þeir koma hingað upp og tjá sig með þeim hætti sem gert var hér í gær af hv. þingmanni.

Staðreyndin er sú að við stefnum að breyttu kerfi. Tekjur hafa dregist verulega saman vegna góðs árangurs í orkuskiptum og vegna sparneytnari bíla. Það eru ekki bara Hvalfjarðargöng sem liggja undir í þessu máli, eða göng á landsbyggðinni, heldur samgöngukerfið í heild. Ég minni á að fjármagna á m.a. borgarlínuna með gjaldtöku í umferðinni og allt tal um mismunun eftir búsetu er því ekki á rökum reist. Það er mikilvægt að sýna stillingu í umræðunni um gjaldtöku í umferðinni. Það hefur ekki komið fram með hvaða hætti gjaldtakan eigi að vera en eitt er víst að horfa þarf til sanngirni, atvinnusvæða o.fl. í þessari vinnu og ég trúi því að niðurstaðan muni taka mið af því.