Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er svolítið hugsi eftir þennan dagskrárlið í dag og í gær. Mig langar því að tala aðeins um mennsku og hvernig við leyfum okkur að tala um fólk, ekki bara hér inni heldur líka úti um allt samfélag. Maður finnur þetta mjög vel í þjóðfélaginu í dag, hvernig opinberar persónur sem gegna trúnaðarstörfum víða um samfélagið leyfa sér að tala á mjög harkalegan hátt persónulega um hvert annað, ekki bara um stefnu fólks heldur persónulega. Maður sér þetta mjög gjarnan í ummælakerfinu, þar er verið að egna hópum mjög kröftuglega á móti hvor öðrum. Einnig finnum við þetta hér í okkar umræðu þar sem reynt er að búa til óvini milli þjóðfélagshópa sem á einhvern hátt þurfa á aðstoð okkar hinna í samfélaginu að halda, aðstoð frá innviðum okkar. Og við leyfum okkur að tala um hlutina eins og þetta sé vandi einstaklinganna en ekki vandi stjórnvalda sem bera ábyrgð á að veita þjónustuna, af því ef þjónustan er ófullnægjandi, þjónusta við aldraða, fatlað fólk eða fólk á flótta, þá leyfum við okkur að tala um fráflæðisvanda og flóttamannavanda, eins og þetta sé vandi þeirra en ekki okkar þar sem stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að vanfjármagna innviði landsins, grunninnviðina, að fjármagna ekki þjónustu (Forseti hringir.) við fatlað fólk, eldra fólk og hreint ekki þjónustu við fólk á flótta. Þar liggur vandinn. Þetta er vandi stjórnvalda, ekki vandi einstaklings sem þarfnast aðstoðar.