153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

málefni flóttafólks.

[10:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Undanfarna viku hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks, með hæstv. dómsmálaráðherra í broddi fylkingar, farið mikinn í umræðu um stjórnlaust ástand í málefnum flóttafólks og umsækjenda um vernd hér á landi en fordæmalaus fjöldi fólks er á flótta í heiminum, ekki síst vegna stríðsins í Úkraínu. Það verður að viðurkennast að nokkuð frjálslega hefur verið farið með staðreyndir og alið mjög á ótta um að hér sé jafnvel allt að fyllast af afbrotafólki þegar um er að ræða fólk sem flýr stríðshörmungar. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á útlendingalögum með það að markmiði að draga úr fjölda þeirra sem hingað leita. Í því samhengi hefur hæstv. ráðherra sérstaklega nefnt Venesúela og fólk af sýrlenskum uppruna með venesúelskt ríkisfang. Talar hann um nauðsyn þess að herða reglur vegna þessa.

Nú er hæstv. forsætisráðherra leiðtogi þessarar ríkisstjórnar og því spyr ég hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir að fólk frá ríkjum á borð við Venesúela og Sýrland geti komið hingað og fengið vernd í samræmi við ákvæði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Mun hæstv. forsætisráðherra styðja breytingar á lögum um útlendinga sem fela í sér frekari hindranir fyrir fólk á flótta sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og kærunefnd útlendingamála hafa sagt að þurfi vernd? Árétta ber að kærunefnd útlendingamála er æðsta stjórnsýslustofnun í málefnum útlendinga og við höfum til þessa dags virt niðurstöður hennar.