Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

málefni flóttafólks.

[10:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir afdráttarlaust svar til stuðnings fólki á flótta frá þeim tveimur ríkjum sem hafa verið í umræðunni að undanförnu. Nú er talað um að fara svipaða leið og Norðurlöndin, sem er alls konar. Því vil ég spyrja: Hvers vegna var undirbúningur fyrir fyrirsjáanlegan fjölda flóttafólks frá Úkraínu ekki betri? Hvers vegna hefur ríkinu ekki tekist að gera samninga við fleiri sveitarfélög um móttöku fólks á flótta? Og hvers vegna er ekki tryggt að fjármagn með hverjum og einum sem nýtur þjónustunnar sé tryggt heldur kostnaði skellt á sveitarfélögin sem nú emja hávært, eðlilega? Nú fella norræn ríki heldur ekki niður grunnþjónustu eftir synjun á verndarumsókn eins og dómsmálaráðherra leggur til. Mun hæstv. forsætisráðherra áfram styðja þá séríslensku leið dómsmálaráðherra að senda fólk á götuna ef ekki hefur tekist að brottvísa því? Og loks: Hvað er verið að gera til að fólk sem hér fær vernd fái betra tækifæri til að aðlagast samfélaginu (Forseti hringir.) í stað þess að lifa í einangrun? Er t.d. verið að fylgja Norðurlöndunum sem leggja verulega áherslu á tungumálakennslu?