Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

skortur á lyfjum.

[10:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn. Það er rétt, þetta er vandi og hefur verið allt of lengi og kannski eru aðstæður sem gera þetta enn meira knýjandi akkúrat þessi misserin. Þegar við tölum um skort er það auðvitað alvarlegt mál fyrir alla og hefur því miður verið að koma upp allt of lengi og verið viðvarandi.

Hv. þingmaður spyr: Hver er staðan í dag? Það eru margvíslegar ástæður fyrir þessu. Það helsta er að við erum skilgreindur örmarkaður. Búið er að rita fjölmargar skýrslur um þennan lyfjaskort og þar kemur fram að minni markaðir upplifa oftar slíkan skort. Af Norðurlandaþjóðunum er ástandið skást í Svíþjóð. Ég get nefnt sem dæmi að í Þýskalandi og stærri Evrópulöndum er þetta síður vandi. Þetta er vandi hér og snýr að fjölmörgum öðrum þáttum. Ódýrustu lyfin lenda oftar í lyfjaskorti. Það er kostnaðarsamt að sérmerkja pakkningar. Það er vandi sem lengi hefur verið unnið í sem snýr að fylgiseðlum. Ég er þeirrar skoðunar, og það er unnið að því í ráðuneytinu með þeim aðilum og stofnunum sem um þessi mál fjalla, að komið verði á rafrænni skráningu þannig að við getum þá verið með einfaldar merkingar utan á pakkningum og að fylgiseðlarnir séu þá á Norðurlandamáli og við vinnum þetta þannig með Norðurlöndunum og stækkum okkar markaðssvæði. Það hefur verið unnið að þessu í þó nokkurn tíma. Ég er aðeins að byrja á því að koma inn á seinni spurningu hv. þingmanns um það að hverju sé verið að vinna.