Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

ástandið í lyfjamálum.

[10:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir fyrirspurnina. Enn erum við að ræða lyfin og úrræði til að nýta og nota lyf. Hv. þingmaður kemur inn á lyfjanefnd Landspítalans. Við sem höfum verið að vinna með fjárlög undanfarin misseri horfum á stöðugt hækkandi kostnað þegar kemur að lyfjalið í fjárlögum. Það hefur aldrei staðið á okkur að tryggja að þau lyf sem nauðsynleg eru verði í boði. Það tengist kannski því svari sem ég kom inn á áðan við fyrirspurn hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar. Við erum alveg í sérstakri stöðu með þennan örmarkað okkar. Við munum alltaf tryggja það og við höfum gert það í gegnum tíðina í gegnum fjárauka — af því að það er erfitt að sjá fyrir hver þörfin verður. Svo hafa, eins og ástandið er, orðið gífurlega miklar verðhækkanir á lyfjum. Við því verður alveg örugglega brugðist í samvinnu við lyfjanefnd Landspítalans. Við höfum tekið þetta samtal við lyfjanefndina og lyfjanefndin alveg örugglega við þingið og velferðarnefnd. Þannig að ekki mun standa á því að tryggja nauðsynleg lyf sem þurfa að vera í boði.