Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

ástandið í lyfjamálum.

[10:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka upp þráðinn varðandi lyfin. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir og við sem höfum starfað í fjárlaganefnd, velferðarnefnd og hér í þinginu undanfarin misseri höfum séð þetta misræmi. Óvissan er mikil og þá hefur sá háttur einhvern veginn skapast að gera einhverja 2 eða 3% aukningu og svo er aukningin yfirleitt meiri. Við höfum séð þetta fara langt umfram og mætum því síðan. Ég myndi alltaf mæla með að komast út úr þessu og reyna að sjá hærri aukningu fyrir, vegna þess að oftast er það reyndin.

Varðandi annað sem er í fjárlagafrumvarpinu þá hefur orðið raunaukning til þessa málaflokks undanfarin misseri. Hv. þingmaður nefnir hér biðlistana sem hafa lengst. Þar þurfum við að bregðast við og aukið fjármagn þarf til. Síðan eru það samningarnir, en ákveðinn ómöguleiki birtist þar vegna þess að lög um opinber fjármál eru þannig að maður þarf að vita um hvað er samið, (Forseti hringir.) hvaða fjárhæð um er að ræða til þess að hægt sé að koma með hana hér inn og óska eftir ákveðnu fjármagni við löggjafann en ekki opnum tékka í einhverja fyrirsjáanlega samninga. (Forseti hringir.) Við leiðum alla þessa samningagerð sem hv. þingmaður kom inn á og það er fullur vilji þess sem hér stendur að ná samningum.