Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

staða Sjúkrahússins á Akureyri.

[11:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður kemur inn á, aukningin er mjög mikil á göngudeild krabbameinsþjónustu á SAk sem og á Landspítala. Þetta er um 30% aukning á skömmum tíma — ég man í svipinn ekki hvort það er á tveimur eða þremur árum sem þessi aukning er birtast — þannig að húsnæðið er sprungið. Það liggur fyrir á framkvæmdaáætlun að byggja nýtt húsnæði og það þarf að reyna að hraða því eins og kostur er og það fer væntanlega af stað, það er komið í gegnum ferla. Þá erum við að tala um legudeild, þá rýmkar um aðra staði. Aukið fjármagn hefur verið sett í svokallaða tengibyggingu, sjúkrahúsapótek, þannig að það stendur allt til bóta. En auðvitað hefur maður áhyggjur af því að þetta taki of langan tíma. Þetta er eitt af þeim dæmum sem maður hefði viljað sjá gerast hraðar og gerast fyrr. En þetta er staðan og við verðum að vinna þetta náið með Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta er í raun og veru bara sama staðan og er á Landspítalanum af því að við erum með alla þessa uppbyggingu þar. Auðvitað er verið að fara í gegnum mjög vandað ferli í allri uppbyggingunni sem á sér stað þar. Þar er m.a. verið að kanna ástand eldri bygginga og er skýrsla komin þar um og fer síðan í rýni í svokölluðum stýrihópi LSH. Það stendur til að Sjúkrahúsið á Akureyri fái aðgang að þeirri þekkingu sem þar hefur byggst upp, með þeirra aðkomu að sjálfsögðu. (Forseti hringir.) Það eru í raun og veru allir sem koma að þessum málum að reyna að hraða þessu og byggja eins vel upp og kostur er í stöðunni sem hv. þingmaður fór hér mjög glögglega yfir.