Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir mjög gagnlega umræðu. Ég ætla að taka upp þráðinn frá síðasta ræðumanni og málshefjanda, hv. þm. Hildi Sverrisdóttur, og taka undir með henni varðandi einkarekstur og einkavæðingu. Þetta er sitthvor hluturinn. Lykilatriðið er að sjúklingurinn á ekki að finna fyrir því hvar hann er staddur, í opinberu eða einkareknu, og við þurfum að kaupa á fjölmörgum öðrum sviðum þjónustu af þeim sem eru með annað rekstrarform en sem opinber aðili.

Þá er ég kominn eiginlega í upphaf umræðunnar, en það er fjölmargt hérna í umræðunni sem ég vildi taka utan um. En eitt er það sem fellur utan líkans og það eru í grunninn þrír þættir. Allar þessar 19 heilsugæslustöðvar eru að gera sama hlutinn, það er að lækna fólk og þjónusta fólk, en það eru þrír þættir sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur sinnt og eru utan líkans. Það er Þróunarmiðstöðin, skimunarmiðstöðin og geðheilsuteymin. Heimahjúkrun fellur einnig utan líkans en er sinnt af Reykjavíkurborg, annars vegar með samningi við Sjúkratryggingar og hins vegar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Læknavaktin sinnir þjónustu um kvöld og helgar og það er innan líkans. En það hafa verið nefndir þættir hérna sem hafa valdið ágreiningi og ég fullyrði það hér að ég er búinn að reyna að ná utan um alla þessa þætti í samráði við alla aðila. Það hefur gengið ágætlega. Það er kannski hluti af því sem skiptir öllu máli miðað við álagið eins og það er á heilsugæslunni, það væri algjört óráð að snúa frá þessu fyrirkomulagi heldur þurfum við bara stöðugt að bæta það. (Forseti hringir.) Þess vegna er búið að koma á fót þessum samráðsvettvangi allra aðila sem tekur jöfnum höndum utan um þróun líkansins og ef upp koma álitamál.