Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla.

52. mál
[14:01]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Ég vil byrja á því sem ég er algerlega sammála honum um, sem hann sagði hérna áðan: Þær aðferðir sem voru þróaðar í Háskólanum á Akureyri eru algert drasl, það er nákvæmlega það sem þær eru. Ég er algerlega sammála því. Ef þær eru algert drasl þá á ekki að hafa þær aðferðir til kennslu í lestri í íslenskum skólum heldur taka þær burtu en það er verið að nota þessar aðferðir við lestrarkennslu í íslenskum skólum, þetta sem hv. þingmaður kallaði algjört drasl. Það er ein af ástæðunum fyrir þessari tillögu, að losna við draslið úr skólunum, þessa kennsluaðferð sem er algert drasl og taka upp og leggja áherslu á hljóðbókstafaaðferðina.

Varðandi leshraðamælingar: Nú les ég hægt, ég sé mjög illa, les mjög mikið og hef kannski lesið allt of mikið á ævinni, [Hlátur í þingsal.] sem er önnur saga. En það breytir því ekki að leshraðamælingarnar, að halda því fram að þú lesir hratt ef þú kannt að lesa — ég kann að lesa en les hægt. Það hefur valdið mér ákveðnum stressi í námi hvað ég les hægt, en það breytir því ekki að það á ekki að hafa þær mælingar fyrir börn. Það á að taka upp stöðupróf. Það er það sem á að gera, miða áskoranir við færni og annað.

Varðandi þessa staðfæringu þá þarf að sjálfsögðu að staðfæra prófið yfir á Ísland. Það er það sem þarf að gera. Þú ert ekki með sama PISA-prófið í Finnlandi og á Íslandi. Finnarnir skora rosalega hátt og eru að gera góða hluti enda er virðing kennurum þar miklu meiri. Ég tel að það þurfi að auka virðingu kennara í íslensku samfélagi miklu meira. Það er líka það að þeir eru með réttar kennsluaðferðir. Börn í Finnlandi kunna að lesa, börn í Bretlandi læra að lesa, börn í Noregi, og ég þekki það eftir dvöl mína erlendis að foreldrar barna kvíða því að koma heim í íslenskt sskólakerfi með börn sín, kvíða því hreinlega. (BLG: Það er ekki aðalnámskrá að kenna.) Jú. Það sem þarf að gera er að leggja áherslu á hljóðbókstafaaðferðina við lestrarkennslu í aðalnámskrá, (Forseti hringir.) skipun að ofan; svona á að gera þetta, ekki hinsegin. (Forseti hringir.) Það byggir á fræðilega viðurkenndum aðferðum, alþjóðlega viðurkenndum aðferðum.