Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla.

52. mál
[14:11]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég finn mig knúinn til þess að fara yfir stjórnskipun menntamála í landinu. Fræðslumál barna og ungmenna eru á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra innan Stjórnarráðs Íslands samkvæmt forsetaúrskurði, þar á meðal námskrá, námsgögn, ábyrgð á læsi og hvaða lestrarkennsluaðferðir eru notaðar í landinu. Það er verið að tala um fagfólk. Þetta fagfólk þarf þá bara að bjóða sig fram til Alþingis og sækjast eftir því að verða mennta- og barnamálaráðherra. Það hljómar eins og hv. varaþingmaður, sem er varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn, sé bara einfaldlega á móti því að það sé mennta- og barnamálaráðherra í landinu. Það eru stjórnvöld sem bera ábyrgð á þessu. Aðalnámskrá í landinu er sett af ráðherra. Það er nú bara þannig. Hann setur þetta, ráðherrann. Það er ráðherra sem tekur ábyrgð á þessu. Það að einhver úti í heimi, í samfélaginu, eitthvert fagfólk — það er ekki þannig. Það er stjórnkerfi menntamála í landinu og það er menntamálaráðherra sem ber ábyrgð á aðalnámskránni. Við erum að leggja áherslu á — ég tel mig knúinn til að lesa þetta aftur:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að innleiða hugmyndafræði verkefnisins Kveikjum neistann og gera eftirtaldar breytingar á aðalnámskrá grunnskóla:

a. Að leggja áherslu á bókstafa–hljóðaaðferð við lestrarkennslu.“

Leggja áherslu á hana. Svo einfalt er það. Svo er annað varðandi stöðumatið og lesskilningsprófin:

„ b. Að innleiða í stað leshraðamælinga stöðumatspróf með bókstafa–hljóðaaðferð.“

Við erum að leggja til að við tengjum stöðumatspróf við þessa aðferð. Við leggjum líka áherslu á það í b-liðnum að lesskilningspróf verði tekin upp og mat á skriflegum texta.

C-liðurinn:

„Að leggja áherslu á að hver nemandi fái áskoranir miðað við færni. “

Þetta er nú ekki stærra en það. Svo er verið að tala um að eitthvert fólk úti í samfélaginu, eitthvert fagfólk, að það eigi að stjórna þessu — af hverju skrifar þá ekki þetta fagfólk aðalnámskrá? Það hlýtur að vera þannig að það eigi þá bara að skrifa aðalnámskrána. Við erum einfaldlega að segja það hérna að það eigi að setja þessar breytingar inn í aðalnámskrá (Forseti hringir.) grunnskólanna í landinu. Það er ráðherrans að setja þá námskrá, (Forseti hringir.) engra annarra, hvorki Alþingis — heldur ráðherrans.