Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breyting á lögum um ættleiðingar.

196. mál
[14:33]
Horfa

Flm. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Í dag mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ættleiðingar. Um er að ræða mál sem er að efninu til nokkuð einfalt en skiptir verulegu máli fyrir hagsmuni fjölskyldna sem ættleiða og þeirra sem eru ættleiddir. Með mér á málinu eru þau Brynja Dan Gunnarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Helga Vala Helgadóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Frumvarpið var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi og er nú endurflutt með breytingum sem eru í samræmi við þær athugasemdir sem bárust um frumvarpið í þeim flutningi málsins.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. og 25. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130/1999, en í því felst að einstaklingur sem hefur verið í sambúð eða hjúskap við annað foreldrið en síðar slitið samvistum við það geti óskað eftir að ættleiða barnið án þess að lagatengsl rofni við hitt foreldrið. Einnig er lögð til heimild til að ættleiða barn eða kjörbarn einstaklings sem hefur fallið frá. Hér er um að ræða að sá sem ættleiðir kemur í stað annars foreldris, þ.e. að barn hafi eftir ættleiðingu lagatengsl við tvo aðila. Það er fólgið í markmiði frumvarpsins að tryggja að umsækjandi sem alið hefur upp barn geti fengið ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð eða hjónabandi við foreldri þess. Eins og staðan er í dag getur einstaklingur sem alið hefur upp barn í fjölda ára ekki sótt um að ættleiða það barn þegar viðkomandi hefur slitið sambúð eða hjónabandi við hitt foreldrið nema þá með þeim hætti að lagatengsl rofni við það foreldri. Að mínu mati er hér um að ræða réttindamál fyrir fjölskyldur því mögulega eiga þessir einstaklingar jafnvel önnur börn saman og sá sem óskar eftir ættleiðingunni vill tryggja að barn sem hefur alist upp hjá viðkomandi hafi sömu réttindi og önnur börn hans og njóti þar með sama erfðaréttar og önnur kjörbörn þess foreldris sem sækist eftir að ættleiða. Því miður er raunin sú í dag að samkvæmt núgildandi lögum getur einstaklingur sem óskar eftir að ættleiða barn sem alist hefur upp hjá umsækjanda sótt um ættleiðingu sem einstaklingur, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna, en það hefur þó þau réttaráhrif að lagatengsl barns við báða blóðforeldra rofnar.

Það kann að vera að það sé svolítið flókið að skilja það sem ég er að tala um. Til að reyna að útskýra mál mitt aðeins betur ætla ég að segja litla dæmisögu. Kona á barn og faðir barnsins er fallinn frá. Konan eignast annan mann sem gengur umræddu barni í föður stað, segjum t.d. í 14 ár. Konan og maðurinn ákveða síðan að slíta samvistum. Maðurinn hugsar með sér að hann hafi alið barnið upp til jafns við önnur börn þeirra og vilji því tryggja því sama erfðarétt. Þar sem þau eru ekki í sambúð lengur er eini möguleiki hans að ættleiða barnið sem einstaklingur og þá rofna tengsl við móðurina. Í þessu frumvarpi er lagt til að umræddur maður eða kona geti ættleitt barnið þannig að það haldi tengslum við móðurina.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem leiðréttir stöðu þeirra fjölskyldna sem ættleiða og þeirra sem eru ættleiddir. Þetta mál tryggir réttarstöðu gagnvart erfðarétti en umfram allt verðum við að horfast í augu við það að í íslensku samfélagi í dag er fjölskyldusamsetningin alls konar, hún er fjölbreytt. Þátttaka beggja foreldra er misjöfn í mörgum tilvikum og því algerlega fráleitt að ætla að skilyrða það að þó svo ekki séu til staðar blóðtengsl við þann sem kýs að ættleiða barn eftir að hafa alið það upp til margra ára, og hefur skapað sér sess í lífi þess, geti hann með engu móti ættleitt og gengið þannig barninu í föður eða móður stað eftir að sambúð eða hjónabandi lýkur við blóðforeldri. Við þurfum að laga þetta. Ég bind væntingar við, þar sem þetta mál er komið snemma inn á þing á þessum vetri, að við náum að afgreiða það. Þetta er ekki pólitískt mál. Þetta er réttindamál sem ég held að flestir ættu að geta sammælst um.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.