153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

heilbrigðisþjónusta vegna endómetríósu.

[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Af því að hv. þingmaður rekur hér söguna til baka, og allt hárrétt, þá brást sá er hér stendur þegar við. Ég vil taka það fram að það hefur verið mjög mikilvægt að eiga gott samtal við Samtök um endómetríósu og það var mjög mikilvægt að ná utan um þessa biðlista og hvar þessi sjúkdómur er staddur, hver staðan er, til að útfæra skipulag aðgerða með tilliti til aukins aðgengis og aðkomu fleiri þjónustuveitenda. Um það snýst málið. Þá ætla ég aðeins að rekja hvað hefur átt sér stað síðan við áttum þetta samtal og fyrir utan þá fundi sem ég hef átt með samtökunum sem hafa beitt sér vel fyrir fræðslu um þennan sjúkdóm. Frá árinu 2017 hefur verið starfandi þverfaglegt teymi sem sérhæfir sig í þjónustu á Landspítala vegna legslímuflakks. Á hverjum tíma eru um 60–70 sjúklingar sem eru í virkri meðferð vegna legslímuflakks á göngudeildum ólíkra meðferðaraðila. Heildarfjöldi á biðlista eftir fyrsta viðtali í byrjun janúar eru 49 sjúklingar og á aðgerðalista 21 kona með aðalgreininguna legslímuflakk og ein sem er með legslímuflakk sem aukagreiningu. Þetta er flókinn sjúkdómur og greiningartíminn er langur. Mér var mikið í mun að fá þá aðila sem til þekkja til að taka utan um þetta og koma með tillögur að því hvernig við getum gert þetta betur og útfært í samvinnu þessara aðila sem hér koma fram, bæði endómetríósuteymið á Landspítalanum, samtökin sem áttu sæti í þessum hópi, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og sjálfstætt starfandi sérfræðinga, (Forseti hringir.) og komu í vorlok tillögur sem ég get farið yfir í seinna andsvari.