153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

Staðan á landamærunum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda og afleidd áhrif .

[15:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hafði ritað hérna ræðukorn sem maður þarf eiginlega að henda eftir að hafa hlustað á síðustu tvær ræður af því að það er svo margt sem fær að fljóta hér sem er kannski ekki alveg í takt við staðreyndir máls. Mig langar aðeins að fara í talnaleik með hv. þm. Bergþóri Ólasyni sem er mjög umhugað um að upplýsa að fjöldi umsækjenda um vernd sé umtalsvert meiri hér en á Norðurlöndum. Nú er það svo að á Íslandi búa tæplega 380.000 manns en á Íslandi eru 63 þingmenn. Það gerir einn þingmann á hvern 5.972 íbúa þessa lands. Í Danmörku búa 5.830.000 manns en þar eru þingmennirnir 179. Það er einn þingmaður á hverja 32.000 íbúa. Í Svíþjóð búa rúmlega tíu milljónir manna og þar eru 349 þingmenn, eða einn þingmaður á hverja rúmlega 29.000 íbúa. Ef við ætluðum að fylgja fólksfjölda og tölum í þessum ríkjum ættu þingmenn á Alþingi Íslendinga að vera 12. Ef við ætlum að fara í svona hausatalningu verðum við að gera það alveg. Þá þurfum við bara í alvöru að horfa á þetta þannig með allt sem við erum að gera; með heilbrigðisþjónustu, með velferðarþjónustu, með skólaþjónustu og með allt saman. Við erum ekki að því. Hins vegar erum við að horfa á að það er fordæmalaus fjöldi fólks á flótta í heiminum í dag. Sjö milljónir manna hafa flúið Úkraínu frá því í febrúar. Þetta er álíka fjöldi og hefur flúið Sýrland frá því að stríðið braust út þar 2011. Ef við ætlum að skila auðu þarna, (Forseti hringir.) sem við getum ekki gert af því að við erum hluti af alþjóðasamfélaginu, og láta eins og önnur ríki en (Forseti hringir.) Venesúela og Úkraína séu meginþorri umsækjanda er hreinlega verið að fara með ósannindi. (Forseti hringir.) Þetta eru þau tvö ríki sem eru langsamlega fjölmennust í umsóknum um vernd á Íslandi.