Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 18. fundur,  17. okt. 2022.

lyfjatengd andlát.

169. mál
[17:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir að taka þetta mál hér upp. Hv. þingmaður kemur hér að fræðslu og forvörnum og mikilvægi þess og skaðaminnkandi úrræða. Ég skal alveg játa það hér að í þeim örfáu ferðum sem ég hef farið til útlanda og átt samtöl við kollega á þessu sviði þá er að því spurt hverju megi þakka þann árangur sem við höfum náð með ungu fólki. Ég held að fræðsla og forvarnir og barátta félagasamtaka á þessu sviði hafi hjálpað okkur gífurlega mikið. Við eigum líka mjög hæft fólk hér í heilbrigðisþjónustu. Það sem við verðum að passa upp á, sem við höfum kannski ekki staðið okkur nægilega vel í, er þetta sem hv. þingmaður kemur inn á, að aðgengið að meðferðum sé alltaf til staðar. Þar er tímasetningin lykilatriði; um leið og glugginn opnast, segir hv. þingmaður. En það er einhvern veginn það sem hefur kannski ekki alveg tekist. Biðlistar eru eitthvað það alversta sem til er þegar kemur að þessum málaflokki, þó að þeir séu alltaf slæmir. En ég fyllist stolti þegar verið er að hrósa fólkinu okkar fyrir að hafa staðið sig vel þarna og ég held að við getum aldrei lagt of mikla áherslu á fræðslu og forvarnir í þessum efnum og eigum að viðhalda þessum árangri og leggja allt í sölurnar til þess.