Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

um fundarstjórn.

[14:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef kannski verið ögn óskýr þegar ég bað forseta um að árétta við hæstv. ráðherra að svara þeim spurningum sem að þeim er beint. Ég var ekki að biðja hæstv. forseta um að segja þeim hvernig þeir ættu að svara eða með hvaða orðum heldur einfaldlega að ráðherrar svari spurningum hér í þingsal. Þetta er vettvangurinn til þess að svara þeim spurningum. Ef hæstv. innviðaráðherra væri nú eini ráðherrann sem væri sekur um að svara ekki nokkrum sköpuðum hlut hér þá væri þetta kannski ekki jafn mikið áhyggjuefni eins og það er. Ég spurði t.d. hæstv. forsætisráðherra í liðinni viku um ýmislegt er varðar fólk á flótta. Hún svaraði svona einum fimmta af þeim spurningum sem ég beindi til hennar og voru þær þó ekki flóknar. Þannig að það er frekar regla en undantekning að ráðherrar bresti á með orðasalati en svari ekki þeim spurningum sem að þeim er beint.