Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Tal síðustu mánaða um hallarekstur á Strætó bs. og skerðingu á þjónustu vekur upp margar spurningar. Það vekur upp spurningar um skipulag, innviðauppbyggingu og hver raunverulegur gróði af bættum og betri almenningssamgöngum er. Það vekur upp spurningar um þá gríðarlegu áherslu sem einkabíllinn fær enn þann dag í dag í samfélaginu okkar þrátt fyrir aukna áherslu á fjölbreytta og vistvæna ferðamáta. Það vekur upp spurningar um hvort almenningssamgöngur ætti ekki að skilgreina sem grunnþjónustu.

SKREF er samstarfsverkefni Vistorku og Orkuseturs um hvernig draga megi úr notkun á einkabílnum með breyttum ferðavenjum. Það er ein af lykilaðgerðum þegar kemur að árangri í loftslagsmálum á Íslandi. Orkuskipti nægja ekki þar heldur þarf að fækka bílum á götunum. Það minnkar svifryksmengun, eykur umferðaröryggi og dregur úr kostnaðarsömu viðhaldi gatna ásamt því að vera stórt umhverfis- og loftslagsmál því að akstur bíls er eitt en framleiðsla og förgun annað. Hugarfarslegar hindranir eru einn af þeim þáttum sem standa í vegi fyrir því að minnka notkun einkabílsins. Við ofmetum ferðatíma göngu og hjólreiða og vanmetum ferðatíma á bíl. Hugsum okkur um áður en við notum bílinn sem úlpu. Gæti verið að það sé fljótlegra að ganga, hjóla eða nýta almenningssamgöngur? Hér í þingsal í gær var mikið talað um frelsi, en á hverju byggjum við frelsi ef það eru engar undirstöður? Þetta er ekki spurning um að það sé einhver sérstök aðför að einkabílnum í gangi heldur er þetta spurning um að gefa fólki raunverulegt val, raunverulegt frelsi til að geta valið sér samgöngumáta. Þá þurfa uppbygging innviða og fjárfestingar að vera í takti við það.