Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Fyrir skömmu sótti ég fund flóttamannanefndar Evrópuráðsins. Hann var haldinn í Grikklandi. Á fundinn kom framkvæmdastjóri stofnunar Sameinuðu þjóðanna um málefni farandfólks. Ég spurði hann að því hvort það væri rétt að aðstæður flóttamanna í Grikklandi væru slæmar. Hann svaraði því til að flóttamannabúðir í Grikklandi stæðust evrópska staðla. Hann bætti því síðan við að á síðastliðnum tveimur árum hefðu aðstæður flóttamanna í Grikklandi lagast mjög; aðbúnaður bættur og starfsfólki fjölgað, og hrósaði framkvæmdastjórinn sérstaklega grískum stjórnvöldum hvað þetta varðar.

Að fundinum loknum skoðaði ég flóttamannabúðir sem eru skammt utan við Aþenu. Fyrst kom ég í móttökustöð þar sem flóttamenn dvelja í þrjá til fjóra daga. Þar fer fram skráning, læknisskoðun og viðtal við lögreglu. Fólkið býr í íbúðagámum sem litu ágætlega út. Í hverjum gámi eru tvö svefnherbergi, eldhús og bað. Leikaðstaða er fyrir börn. Óheimilt er að yfirgefa þessa móttökustöð fyrr en viðkomandi hefur fengið skilríki. Þegar viðkomandi hefur fengið skilríki fer hann í aðrar búðir þar sem hann dvelur í þrjá til 12 mánuði meðan mál hans er til skoðunar. Hann hefur ferðafrelsi og getur farið út og inn í þessar búðir. Ég skoðaði einnig þessar búðir og voru þær snyrtilegar. Þar voru ýmist íbúðagámar eða íbúðir, ágæt aðstaða fyrir börn, leikskóli og íþróttahús og börn á skólaaldri eru sótt í skólabíl og fara í gríska skóla. Mikið átak hefur verið gert í því að bæta aðstöðu flóttamanna í Grikklandi. Verið er að loka búðum sem þykja ekki nógu góðar og þangað fer enginn nýr flóttamaður. Verið er að endurnýja fjölmarga íbúðagáma og bæta afþreyingu. Í umræðunni um flóttamenn hér á landi síðustu daga hefur ýmislegt verið alhæft um Grikkland. Það er skoðun mín, herra forseti, eftir þessa upplýsandi ferð að flóttamenn í Grikklandi búi við mannsæmandi aðstæður.