Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Inni í hv. atvinnuveganefnd er þingmál mitt um tímabindingu veiðiheimilda til 20 ára til umfjöllunar. Tímabundinn afnotaréttur er að mati flutningsmanna tillögunnar forsenda þess að ná megi tveimur mikilvægum markmiðum, annars vegar að lagareglur endurspegli með ótvíræðum hætti eignarrétt þjóðar og hins vegar að þær stuðli að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.

Í vikunni birtist svar hæstv. matvælaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Viðreisnar, Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, varðandi nýtingarrétt aflahlutdeildar. Afstaða ráðherrans var að taka ætti upp auðlindaákvæði í stjórnarskrá og í framhaldi af því þyrfti að útfæra betur í lögum um stjórn fiskveiða til hversu langs tíma hægt væri að fá afnotarétt af auðlindum í eigu þjóðar — sem sagt tímabindingin. Þetta er afstaða ráðherra VG. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hvorki farið leynt með andúð sína á hugmyndum um tímabindingu veiðiheimilda né andstöðu sína við slíkt fyrirkomulag og slíkar breytingar yfir höfuð.

Ég vil þakka Stefáni Vagni Stefánssyni, hv. þingmanni Framsóknarflokks og formanni atvinnuveganefndar, fyrir að taka vel í ósk mína um að eiga hér orðastað. Mér finnst nefnilega mikilvægt að fá staðfestingu á afstöðu þriðja stjórnarflokksins til þessa máls. Í sumar sagði formaður Framsóknarflokksins, hæstv. innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, að aðstæður í sjávarútvegi hlytu að kalla á annars konar gjaldtöku. Það er í sjálfu sér í anda frumvarps sem hæstv. innviðaráðherra, formaður Framsóknar, lagði fram þegar hann var sjávarútvegsráðherra sem og tillögu sem fulltrúi Framsóknarflokksins lagði inn í nefnd Þorgerðar K. Gunnarsdóttur um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku af fiskveiðiauðlindinni. Þetta var árið 2017 en orð ráðherra og formanns Framsóknar frá því í sumar endurspegluðu það.

Hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson situr með mér í sjávarútvegsnefnd matvælaráðherra sem ætlað er að skoða mögulegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, m.a. til að ná fram langþráðri sátt. (Forseti hringir.) Má vænta þess að þingmaðurinn dusti rykið af hugmyndum Framsóknar um tímabindingu heimilda (Forseti hringir.) og þar með styðji þau okkar sem vilja sjá þessar breytingar verða að veruleika og komi þannig til móts við vilja yfirgnæfandi meiri hluta íslenskrar þjóðar?