Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Undanfarin ár hefur orðið hröð fólksfjölgun á Suðurnesjum með tilheyrandi vaxtarverkjum, þ.m.t. í aðgengi að heilsugæslu. Við þessu hefur verið brugðist og heilbrigðisráðherra fól Sjúkratryggingum Íslands á dögunum að auglýsa eftir rekstraraðila til að reka nýja heilsugæslustöð í Reykjanesbæ. Sjúkratryggingar hafa nú gengið að tilboði heilsugæslunnar Höfða í rekstur nýrrar einkarekinnar heilsugæslustöðvar í Reykjanesbæ. Samkvæmt útboðsgögnum skal heilsugæslustöðin vera opnuð fjórum til sex mánuðum eftir undirritun samnings. Því er ljóst að ný heilsugæslustöð mun líta dagsins ljós á vormánuðum.

Hér er um að ræða fyrstu einkareknu heilsugæslustöðina utan höfuðborgarsvæðisins og má svo sannarlega segja að um sé að ræða lyftistöng fyrir alla heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Mikilvægt er að tryggja heilsugæslu fyrir alla, enda er heilsugæslunni ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn samkvæmt lögum. Samhliða þessu mikilvæga skrefi hefur verið tekin ákvörðun um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ sem á að þjóna um 15.000 íbúum.

Reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið góð og njóta þær trausts meðal notenda sinna. Ég tel það vera skynsamlega þróun að hafa einkareknar heilsugæslustöðvar samhliða ríkisreknum. Má því tryggja að fleiri læknar sæki sér menntun sem heilsugæslulæknar og aukin þjónusta verði í boði. Erfitt hefur verið að fá lækna til að fara í sérnám í heimilislækningum, m.a. vegna þess að þeir hafa bara eitt form til að fara inn í og það er að starfa á ríkisreknum heilsugæslustöðvum á meðan aðrir sérgreinalæknar hafa farið í rekstur með ólíkum hætti. Mikilvægt er að horfa heildstætt á allan rekstur í heilbrigðiskerfinu en þó mikilvægast af öllu að allir geti sótt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Ég vil meina að um sé að ræða mikið framfaramál fyrir Suðurnesin.