Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf án staðsetningar.

[16:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Það er mikilvægt að verkefnum hins opinbera sé dreift meira um landið. Því fylgja aukin atvinnutækifæri og fjölbreytni eykst í mannlífi og atvinnulífi í hinum dreifðu byggðum. Það eykur lífsgæði fólks að geta valið sína búsetu óháð menntun og starfsumhverfi. Valdið færist nær fólkinu og ákvarðanir framkvæmdarvaldsins eru teknar nær því fólki sem þessar ákvarðanir hafa áhrif á. Slík valdefling byggðanna er þannig hvort tveggja mikilvæg og jákvæð.

Við þekkjum öll þá þróun sem hefur orðið í þá átt að gera fólki kleift að sinna alls konar störfum að heiman, jafnvel milli landa. Skrifstofan okkar er í tölvunni og við erum sítengd. Þessu fylgja miklir möguleikar til að dreifa störfum um landið óháð staðsetningu en það er líka ástæða til að vera vakandi fyrir þeim skuggahliðum sem slík sítenging og slíkt óhefðbundið starfsumhverfi getur haft. Þær geta birst í auknu álagi á fólk sem fylgir því að mörk einkalífs, frítíma og atvinnu verða óljósari og vinnuveitendur geta gengið á lagið og krafist sífellt meira framlags á ólíkum tímum sólarhrings allan ársins hring án þess að fólk sé á sérstökum yfirvinnulaunum. Það er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart þeirri þróun um leið og við fögnum fjölbreyttum störfum um allt land. Það þarf að tryggja með lögum rétt starfsfólks til nauðsynlegrar starfsaðstöðu til takmarkaðs vinnutíma og til öryggis sem fylgir því að mæta til einhverrar vinnu og eiga í samskiptum við annað fólk. Við þurfum að draga ákveðinn lærdóm af Covid-tímanum og þeim kostum en líka ókostum sem fylgdu heimavinnunni á þeim tíma. Höfum það líka í huga þó að við fögnum fjölbreyttum störfum um allt land.