Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[13:42]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um flutning Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að stefna skuli að flutningi Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.“

Þessi tillaga var áður flutt á 152. löggjafarþingi. Útlendingastofnun er ein af undirstofnunum dómsmálaráðuneytisins og starfar samkvæmt löggjöf um málefni útlendinga. Stofnunin hefur mikið verið í sviðsljósinu undanfarið vegna aukningar á umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi og hefur mikið mætt á stofnuninni þessi misseri. Umfangsmesti þáttur í starfsemi Útlendingastofnunar er útgáfa dvalarleyfa, hvort sem um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku eða t.d. fjölskyldusameiningar, námsvistar eða vistráðningar, og afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd og umsókna um íslenskan ríkisborgararétt.

Stofnunin er til húsa í Kópavogi og þar starfa tæplega 90 manns. Mikill meiri hluti opinberra stofnana er á höfuðborgarsvæðinu, eins og við þekkjum. Af því leiðir að störf flestra stofnana standa í raun einungis íbúum höfuðborgarsvæðisins til boða, þótt vissulega sé það nú þannig að fólk ferðast um nokkuð langan veg til að sækja vinnu hér í Reykjavík, bæði frá Suðurlandi og svo á Suðurnesjum og Vesturlandi. Með flutningi Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar væri tekið stórt skref í átt að því að tryggja fjölbreytt atvinnutækifæri utan höfuðborgarsvæðisins. Á Suðurnesjum er hlutfall háskólamenntaðra mun lægra en landsmeðaltal segir til um og þær tölur sem gefa góða glögga mynd af þessu eru afgerandi hvað þetta varðar. Mikill meiri hluti starfa hjá Útlendingastofnun eru sérfræðistörf sem krefjast háskólamenntunar. Með flutningi stofnunarinnar til Reykjanesbæjar væri því sérfræðistörfum fjölgað og þar með hlutfalli háskólamenntaðra á svæðinu. Ég tel það vera mikilvæg rök í þessari tillögu að reyna að sporna við þeirri þróun sem því miður hefur orðið á Suðurnesjum að það virðist vera lægra menntunarstig þegar kemur að störfum sem þessum. Þar að auki býr fjöldi innflytjenda á Suðurnesjum. Nýjustu tölur sem ég hef fengið varðandi þá sem eru að leita sér alþjóðlega verndar hér á landi, eru að tæplega 500 einstaklingar séu búsettir á Suðurnesjum sem eru þá í þjónustu sveitarfélagsins og ríkisins. Það sjá það allir að þetta er mjög hátt hlutfall og að ég held það hæsta sem er á landinu eins og staðan er núna alla vega. Ef við horfum til Úkraínumanna, sem eru svolítið sér hvað þetta varðar, þá eru þeir náttúrlega fjölmargir á höfuðborgarsvæðinu. En það er engu að síður hátt hlutfall þeirra á Suðurnesjum. Þessir aðilar nýta sér náttúrlega þjónustu stofnunarinnar, en um 9% íbúa í Reykjanesbæ eru af erlendum uppruna. Þá er rétt að líta til þess að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd kemur til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll og því væri hentugt og ætti í raun að vera eðlilegt að stofnunin væri í meiri nálægð við flugvöllinn. Ég held að það séu orðnar ríkari ástæður fyrir því að þessi tillaga yrði samþykkt, líka í ljósi þess að hér hefur orðið mikil fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd á mjög skömmum tíma. Velferðarsvið Reykjanesbæjar hefur auk þess séð um þjónustu og aðbúnað þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi síðan 2004 og var fyrsta sveitarfélagið til að bjóða upp á þá þjónustu.

Ef við víkjum aðeins að fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins þá hefur það verið eitt af meginvandamálum samfélaga á landsbyggðinni, þ.e. skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa. Aukinn fjöldi og fjölbreytni starfa utan höfuðborgarsvæðisins eykur líkurnar á því að fólk af landsbyggðinni sem sækir sér menntun á höfuðborgarsvæðinu snúi aftur til heimabæjar síns eftir að námi lýkur. Það laðar jafnframt fremur að nýja íbúa.

Það er athyglisvert að skoða skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um samfélagsgreiningu á Suðurnesjum frá 8. október 2021. Þar kemur fram að atvinnulíf á Suðurnesjum sé einhæft og framboð atvinnu takmarkað. Þá kjósi margir íbúar svæðisins að starfa í Reykjavík þar sem fleiri möguleikar og fjölbreyttara úrval starfa sé í boði. Atvinnulífið í Reykjanesbæ er að miklu leyti háð flugsamgöngum og ferðaþjónustu. Þetta sáum við svo sannarlega í kórónuveirufaraldrinum þegar þessum störfum fækkaði mjög hratt á skömmum tíma og atvinnuleysið fór í hæstu hæðir á Suðurnesjum og var þá það mesta á landinu.

Flutningur Útlendingastofnunar til sveitarfélagsins myndi því ótvírætt fela í sér nauðsynlega fjölbreytni vinnumarkaðarins á Suðurnesjum, ekki síst sérfræðistörf sem krefjast háskólamenntunar. Ég rakti það áðan að nauðsyn þess að bæta hlutfall Suðurnesjanna hvað þetta varðar.

Atvinnumöguleikar ráða óneitanlega miklu þegar einstaklingar ákveða hvar skal búa, en þeir möguleikar eru umtalsvert minni í Reykjanesbæ en á höfuðborgarsvæðinu og bera opinberar tölur um atvinnuleysi það skýrlega með sér. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar var áætlað atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu í desember 2021, tökum þá tölu hér, 5,0%, en á sama tíma var atvinnuleysi í Reykjanesbæ 9,9%. Þetta hefur verið þróunin í atvinnuleysistölum, þ.e. að viðvarandi atvinnuleysi virðist vera mest á Suðurnesjum. Slíkt misræmi í atvinnuleysi á milli bæjarfélaga er óheppilegt og því rétt að bregðast við með þeim hætti að auka framboð og fjölbreytni á atvinnu í Reykjanesbæ eins og hér er lagt til.

Þrátt fyrir að það geti verið eitthvert óhagræði fyrir núverandi starfsmenn Útlendingastofnunar að starfsemin verði flutt út fyrir höfuðborgarsvæðið, þá er Reykjanesbær skammt frá höfuðborgarsvæðinu Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki sérstaklega íþyngjandi fyrir starfsmenn stofnunarinnar ef hún yrði flutt til Reykjanesbæjar og það eru margir sem íbúar í Reykjanesbæ sem hafa atvinnu hér á höfuðborgarsvæðinu og ekkert að því að sækja atvinnu frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja. Ég held að menn séu almennt sammála því.

Frú forseti. Að þessu sögðu þá held ég að það sé nauðsyn á því að efla þessa stofnun, Útlendingastofnun, bara í ljósi þess sem hefur gerst núna á undanförnum misserum, að hér hefur fjölgað mjög fólki sem sækir um alþjóðlega vernd og heimsmyndin í Evrópu hefur breyst mjög á skömmum tíma. Við þekkjum það að stríðið í Úkraínu hefur breytt Evrópu, að ég held til frambúðar og sá gríðarlegi flóttamannastraumur sem er frá Evrópu frá Úkraínu hefur svo sannarlega sýnt okkur mikilvægi þess að aðstoða fólk í stríðshrjáðum aðstæður eins og í Úkraínu. Hingað eru nú komnir tæplega 2.000 einstaklingar frá Úkraínu og okkur hefur tekist vel að taka á móti þessu fólki. En þetta kallar á gríðarlega vinnu og mikið álag á starfsfólk eins og í Útlendingastofnun. Ég tel það bara vera hluti af því að ef stofnun yrði flutt til Reykjanesbæjar þá myndi hún flytja þar í gott húsnæði og við munum reyna að efla þessa stofnun og hún yrði þá sem næst þeim sem leita þessarar þjónustu sem, eins og ég sagði áðan, koma í gegnum Keflavíkurflugvöll.

Allsherjar- og menntamálanefnd fór í fræðsluferð til Danmerkur og Noregs til að kynna sér útlendingamálin þar og löggjöfina og framkvæmdina í þeim efnum. Þessi ferð var mjög gagnleg fyrir nefndina. Þar komum við í útlendingaeftirlitið í Danmörku, það er bygging sem telur einar átta hæðir. Þar starfa tæplega 1.000 manns. Þar var afar vel búið að þessum starfsmönnum og störfin náttúrlega mörg hver krefjandi. Þetta er málaflokkur sem er að vaxa mjög. Samkvæmt nýjustu tölum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru u.þ.b. 100 milljónir manna á flótta í heiminum í dag. Þess vegna er afar mikilvægt í fyrsta lagi að við mörkum okkur stefnu til framtíðar í þessum málaflokki. Fyrir liggur að hér verður lagt fram frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á þessum lögum sem lúta að þessum málaflokki og málefnum útlendinga og það er mikilvægt að það frumvarp fái afgreiðslu hér. Allt lýtur þetta að því að gera þessa vinnu skilvirkari. Þess vegna þurfum við á því að halda að þeir sem starfa í þessum geira séu vel settir með sína starfsaðstöðu og geti auk þess sinnt þessu mikilvæga starfi af fagmennsku, sem er mikilvægur þáttur í þessu öllu saman. Svo ég vísi aftur til fræðsluferðarinnar þá sáum við, eins og t.d. í Danmörku og í Noregi líka, að þeir eru framar okkur í þessum efnum.

Hér erum við aftarlega að mínu mati og hér gilda ákveðnar sérreglur sem við ættum ekki að hafa. Að mínum dómi eigum við bara að hafa sama kerfið og er á Norðurlöndunum. En það er ekki þannig í dag og vonandi náum við að stíga gott skref í þá átt með þessu frumvarpi dómsmálaráðherra sem verður lagt hér fram á þingi innan skamms. En maður sá það þarna í Danmörku að þar er mikil skilvirkni og eins hefur þeim tekist í Noregi að afgreiða þessar umsóknir á u.þ.b. 48 klukkustundum.

Allt skiptir þetta máli. Þetta er vaxandi málaflokkur og þess vegna held ég að það sé afar mikilvægt að við tökum það skref að bæta starfsaðstöðu þessa starfsfólks og flytja stofnunina til Reykjanesbæjar þar sem flestir eru sem nýta þjónustuna. Eins og ég nefndi eru núna u.þ.b. 500 manns sem eru í þjónustu bæði á vegum sveitarfélagsins og ríkisins sem eru að bíða eftir niðurstöðu varðandi það hvort þau eigi rétt á alþjóðlega vernd hér á landi.

Að þessu sögðu, frú forseti, þá vísa ég þessari tillögu til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vona að hún fái góða umfjöllun þar og að við sjáum þetta verða að veruleika innan ekki svo langs tíma að þessi ágæta stofnun verði flutt nær þeim sem sækja þessa þjónustu, en í því tilfelli er lagt til, eins og áður segir, að hún verði flutt til Reykjanesbæjar.