Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:00]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég veit að hann hefur stórt hjarta fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ og við deilum því göfuga markmiði saman.

Nei, ég hef engar áhyggjur af því að þetta auki álag á Reykjanesbæ. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður er að fara í þeim efnum. Þetta er stofnun sem u.þ.b. 90 starfsmenn starfa hjá og þarna erum við að færa sérfræðistörf — mörg þeirra eru sérfræðistörf — til Reykjanesbæjar. Það hefur sýnt sig, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að hlutfall sérfræðistarfa háskólamenntaðra á Suðurnesjum er lágt og það lægsta í samanburði við aðra landshluta. Við þurfum að vinna í því að laga þessa hluti.

Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að margir sem bíða eftir alþjóðlegri vernd eru á Suðurnesjum, t.d. uppi á Ásbrú, þar sem Útlendingastofnun hefur ekki haft nægilegt samráð við sveitarfélögin. Það er eitthvað sem þarf að bæta og ég held það væri meira að segja liður í þessu, ef stofnunin væri komin þarna suður eftir, að samráðið myndi eflaust verða eitthvað betra þó að það eigi ekki að vera forsenda fyrir því að flytja stofnunina.

En nei, ég óttast ekki að þetta geti haft í för með sér álag fyrir stofnunina. Ég sé ekki alveg hvernig hv. þingmaður fær það út. Það er vissulega álag á Reykjanesbæ vegna fjölda þeirra sem eru á svæðinu og bíða eftir alþjóðlegri vernd, ég tek heils hugar undir það. Við þurfum að vinna að því og það felur m.a. í sér að Útlendingastofnun komi ekki með einstaklinga eða finni búsetuúrræði í sveitarfélaginu án samráðs við sveitarfélagið sjálft. Það er lykilatriði í þessu.

En svo ég svari spurningunni þá hef ég ekki áhyggjur af þessu. Ég held að bæjarfélög muni fagna því að þarna komi störf sem krefjist menntunar á svæði sem þarf sannarlega á því að halda.