Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:06]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nei, það hefur nú ekki farið fram kostnaðarmat á þessu. Það hefur verið vinnureglan þegar svona tillögur fara til nefndar að þar sé farið yfir þann þátt. Ef þessi tillaga yrði samþykkt þá yrði kostnaðarmat gert í framhaldinu. Mér finnst það ekki vera aðalatriðið í þessu. Það er líka bara aðbúnaðurinn, að búa vel að starfsfólkinu og að það sé þá í nærveru við þá sem leita eftir þjónustunni, eins og við höfum nefnt og ég nefndi í minni ræðu, að mikilvægt sé og eðlilegt að þeir séu í návígi við þá sem eru að leita eftir þjónustunni. Þetta er jú þjónustustofnun. Þar er nærveran við Keflavíkurflugvöll mikilvægur þáttur.

Eins og var rakið hér áðan og hv. þm. Guðbrandur Einarsson nefndi þá eru fjölmargir á Suðurnesjum sem eru að leita eftir þessari þjónustu. Það yrði náttúrlega auðveldara fyrir þá að sækja sér þjónustuna þegar hún er í Reykjanesbæ heldur en er í dag.

Það er nú einu sinni þannig að stefnan hefur verið að fjölga störfum á landsbyggðinni. Eins og ég nefndi hér áðan hafa Suðurnesin verið út undan í þeim efnum og löngu tímabært að við förum að huga að því að þangað sé heppilegt að flytja eitthvað af þeim störfum sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Fólk ferðast bæði til Suðurnesja til að sækja vinnu og frá Suðurnesjum til höfuðborgarsvæðisins að sækja vinnu þannig að ég sé ekki að í því sé óhagræði.

Varðandi kostnaðinn þá er það eitthvað sem verður farið (Forseti hringir.) vandlega yfir þegar og ef þessi tillaga verður samþykkt.