Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:48]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum næstum því að verða sammála um hvað passar inn í okkar svæði. Við þurfum að horfa til þess hvað passar í okkar svæði. Eins og hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson nefndi áðan og vitnaði hér í þing eftir þing þar sem verið var að fjalla um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja þá er þar verk að vinna sem skiptir okkur máli. Það gæti orðið veruleg lyftistöng fyrir sveitarfélagið, ekki bara flutningur Landhelgisgæslunnar „per se“ heldur öll þau afleiddu störf sem gætu orðið til vegna flutningsins. Við sjáum bara að BYKO er t.d. strax farið að átta sig á þessu og ætlar að færa verslun sína þaðan sem hún er við hliðina á skipasmíðastöðinni til að geta þjónustað starfsemina sem þarna er að koma, fyrir utan alla aðra starfsemi sem getur orðið til.

Ég vil líka minna á að þar er búið að eiga sér stað mikið samráð og við hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson, sem kjörnir fulltrúar, tókum þátt í að samþykkja það að sveitarfélagið, þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu, legði til nokkur hundruð milljónir í hafnargerð til að tryggja að þessi starfsemi myndi geta komið til Reykjanesbæjar. Því er ýmislegt sem við getum unnið. Útlendingastofnun, aftur á móti, hefur á sér neikvæða ásýnd og það er eitthvað sem Reykjanesbær þarf ekki á að halda. Við höfum nægjanlega mikið af neikvæðri ásýnd eftir það sem á undan er gengið. Því ætla ég að standa með hv. þingmanni í að reyna að draga til Reykjanesbæjar starfsemi sem passar inn í samfélagið okkar.