Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

umboðsmaður sjúklinga.

210. mál
[16:27]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi kostnaðinn — það er náttúrlega það fyrsta sem mér datt í hug: Já, það er kostnaður, þess vegna er þetta embætti ekki stofnað, það má ekki stofna enn eitt örembættið sem ég tel reyndar ekki — það er nú til skýrsla frá Ríkisendurskoðun um þessi tvö embætti. Ég tel, og það kemur fram í greinargerðinni í þriðju setningu, með leyfi forseta: „Í slíkum málum þurfa sjúklingar því sjálfir að leita sér aðstoðar lögfræðinga sem getur verið mjög kostnaðarsamt og tímafrekt.“

Ég lít á það þannig að í þessu embætti umboðsmanns sjúklinga yrði að vera góður lögfræðingur eða lögmaður þarna og að það væru raunverulega einn eða tveir starfsmenn hjá umboðsmanni sjúklinga sem gætu aðstoðað sjúklinga og gætt réttar þeirra og gætu verið með ályktanir eða álit almennt, leiðbeiningar til stjórnvalda til að bæta úr og líka leiðbeiningar til sjúklinganna. Ég tel að þetta gæti sparað kostnað, það er mín skoðun, að þarna væru embættismenn, starfsmenn ríkisins, og að það myndi ekki kosta neitt fyrir sjúklinga að leita til þeirra, þeir myndu veita þeim mikinn stuðning, og að það væri verið að fá mikið fyrir lítið þarna. Eins væri þarna upplýsingagjöf og álit, leiðbeiningar til stjórnvalda um hvernig hægt væri að bæta málsmeðferðina. Þannig að ég held varðandi þetta kostnaðarsjónarmið; ef þú horfir á þetta svona samfélagslega séð þá þurfi kostnaðurinn ekki að vera mjög mikill fyrir samfélagið. Ég veit að þetta er gríðarlegur kostnaður fyrir sjúklingana. Mig grunar það líka og mér finnst það bara mjög áhugavert efni og ég held að það muni ekki vaxa stjórnvöldum í augum eða vera fyrirstaða gagnvart því að stofna þetta mikilvæga embætti umboðsmanns sjúklinga að segja að kostnaðurinn sé of mikill. En það væri gott að heyra álit hv. þingmanns á því.