Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

umboðsmaður sjúklinga.

210. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Já, þetta er alltaf sama umræðan. Þegar við horfum til kostnaðar þá virðumst við einhvern veginn bara horfa á einn mjög afmarkaðan stað og erum í raun ekkert allt of mikið að horfa á þau keðjuverkandi áhrif sem þetta getur haft og sparnaðinn sem þetta felur í sér. Það er þessi langtímahugsun og að hugsa um samhengi hlutanna sem vantar oft þegar við erum að skoða kostnaðinn við breytingar. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og tek undir það, ég held að þetta muni spara fjármagn fyrir sjúklinginn, fyrir einstaklinginn sem er að sækja sér aðstoðina, sem skiptir máli en ég held líka að það gæti bara létt undir öllu kerfinu af því að þegar kemur að því að átta sig á hver réttindi manns eru í kerfinu og hvernig þjónustunni er háttað, hvert þú átt að sækja þér þjónustu og annað þá getur það verið algjör frumskógur fyrir fólk sem ekki hefur þurft að díla við þetta áður. Ef einhver einstaklingur eins og umboðsmaður sjúklinga er til staðar til þess að leiðbeina fólki þá get ég ekki ímyndað mér annað en að það létti á öllu kerfinu og komi í veg fyrir að verið sé að fara á marga staði eða fara á vitlausa staði og létti líka undir með landlæknisembættinu í leiðinni, að þetta væru tvö embætti sem gætu unnið bara ofboðslega vel saman. Þannig að ég sé fyrir mér að bæði myndi þetta létta á og spara pening til langs tíma. Ég held að við ættum ekki að láta kostnaðinn stoppa okkur. Við ættum líka að hugsa um hvernig þetta myndi aðstoða fólk, upplifun þess af heilbrigðiskerfinu myndi líka batna til muna og það skiptir máli. Það skiptir máli að almenningur beri traust til heilbrigðiskerfisins okkar og þetta væri, held ég, bara mjög jákvætt skref í því.