153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

umsóknir um ríkisborgararétt.

[14:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra játaði sök hér rétt áðan þegar hann sagðist hafa fyrirskipað að undirstofnun sín myndi ekki fara eftir þeirri stjórnskipunarvenju sem hefur ríkt hér um árabil við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt frá Alþingi. Hæstv. dómsmálaráðherra væri e.t.v. í öðrum ríkjum dreginn fyrir landsdóm fyrir að brjóta svo freklega á Alþingi og lögum. Stjórnskipunarvenjur eru jafn réttháar stjórnarskránni. Það er þannig. Þetta er fyrirkomulag sem hefur verið hérna árum saman. Ef hæstv. dómsmálaráðherra vill breyta því þá gerir hann það með lögum. Þá breytir hann lögunum. (Forseti hringir.) Þá breytir hann lögum um ríkisborgararétt en ekki með eigin geðþótta í rassvasanum á sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)