153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[14:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra þarf að átta sig á því að það er ákvörðun stjórnvalda að veita fólki frá Venesúela viðbótarvernd eins og það er kallað. Það er kærunefnd útlendingamála sem tekur ákvörðun um það og kærunefnd útlendingamála er sjálfstæð stofnun sem við höfum hlustað á hingað til. Kærunefnd útlendingamála hlustaði á Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem segir að vargöld ríki í Venesúela og þess vegna beri okkur að veita þessu fólki skjól.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem hefur talað mikið um glæpamenn sem eru að nýta sér neyð fólks á flótta, hvað það er í þessu frumvarpi sem tryggir það að glæpamenn úti í heimi nýti sér ekki fólk á flótta, að fólk á flótta verði ekki fórnarlömb mansals, fólk á flótta verði ekki fórnarlömb þess að glæpamenn úti í heimi steli peningunum þeirra og fleira. Þetta er meðal þess sem (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra hefur fjallað um í fjölmiðlum og hér í ræðustól að undanförnu og væri gott að heyra hvað í þessu frumvarpi tekur á móti því ástandi sem er hér á Íslandi í dag.