153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[14:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er ýmislegt annað sem þarf að bregðast við samhliða þessu, til að mynda auknar rannsóknir lögreglu á skipulagðri brotastarfsemi sem að hluta til tengist yfir í alþjóðlega glæpastarfsemi. Það eru ekki bara upplýsingar sem við höfum frá íslenskum löggæsluyfirvöldum. Við höfum þessar upplýsingar einnig frá lögregluyfirvöldum í Evrópu og Europol þannig að það er full ástæða fyrir okkur að styrkja stöðu lögreglunnar gagnvart þeim rannsóknum og eftirfylgni á landamærunum með því að hér sé ekki verið að misnota m.a. fólk sem er í þessari erfiðu stöðu. Kærunefndin komst að þessari niðurstöðu varðandi íbúa frá Venesúela um að þeir ættu að fá hér viðbótarvernd sem leiðir af sér að við erum að fá hér gríðarlegan fjölda fólks frá því landi og við erum að skoða það. Um þessa niðurstöðu eru ekkert allir sammála en kærunefndin hefur lokaorðið í þessu og við erum að skoða þær ráðstafanir sem eru eðlilegar og gæti verið ástæða til að grípa til gagnvart því sérstaklega.