153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé heilmikið til í því hjá hv. þingmanni þegar hann kemur inn á það að þingið hafi gefið frá sér ákveðin völd í þessu og frá framkvæmdarvaldinu. Ég held að það eigi við í mörgum tilfellum öðrum þar sem við erum með nefndir úti í bæ sem ábyrgðinni er varpað á. Ég held að þingið þurfi að skoða sinn hug í því í framtíðinni hvernig menn ætla að bregðast við því og hv. þingmaður getur væntanlega tekið það á sig sem hann á í því, vegna þess að ég held að þau lög sem þessi nefnd á stað í hafi verið búin til þegar hann var forsætisráðherra. (SDG: Rangt … ráðherra Sjálfstæðisflokksins.) Hann var forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn þegar þessi lög voru sett, (Gripið fram í.) þegar þau voru í vinnslu. (Forseti hringir.) Þannig að ég held að við getum öll litið í eigin barm með þetta. En ég get verið sammála þingmanninum í þessu og ég tel reyndar að það þurfi að skoða alveg sérstaklega breytingar á lögum með tilliti til þessa. En við erum klárlega í miklu breyttara umhverfi með þessum lögum frá því sem var, í þeim vanda sem þingmaðurinn vitnar til að hafi verið kominn af stað áður en Úkraínustríðið kom til. Þessi lagabreyting mun taka mjög mikið á þeim efnum.