153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Andsvör eru notuð til að spyrja ræðumenn og inna ræðumenn svara við einhverju sem þeir halda fram hér. Það er mikill ósiður þegar ræðumenn leggja í vana sinn að svara ekki einstaka spurningum. Það er enn meiri ósiður þegar ræðumenn, sérstaklega hæstv. ráðherrar sem eru að kynna hér frumvörp, svara engum af þeim spurningum sem bornar eru fram. Ég spurði hæstv. ráðherra hvað í þessu frumvarpi kæmi í veg fyrir þann fjölda fólks sem er hér á flótta frá annars vegar Venesúela og hins vegar Úkraínu, en það eru 80% þeirra umsækjenda hér eru og eru að valda þeim óróa sem núna eru uppi. Hins vegar spurði ég hæstv. ráðherra hvað í þessu frumvarpi kæmi í veg fyrir hagnýtingu glæpamanna á fólki í neyð, fólki sem leitar hér verndar. Hvorugri spurningunni svaraði hæstv. ráðherra. Á síðustu sekúndum mínum vil ég óska eftir því að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra verði viðstaddur þessa umræðu alla. Hann fer með hluta málaflokksins eftir uppskiptingu ráðuneyta (Forseti hringir.) og hann verður að vera hér til að geta tekið þátt í umræðunni. Ég óska eftir að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra komi hingað í þessa umræðu.