153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Aðeins vegna athugasemda hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur sem spyr af hverju við köllum ekki bara til fjármálaráðherra. Við værum væntanlega að kalla fjármálaráðherra hingað ef eitthvað í frumvarpinu væri um það að hæstv. dómsmálaráðherra væri að fara að taka við hluta af hans verkum ef lögin verða samþykkt. Hér er nefnilega verið að leggja til að hlutur sem er á könnu félags- og vinnumarkaðsráðherra í augnablikinu færist yfir til dómsmálaráðuneytisins. Þetta frumvarp er ekki orðið að lögum og meðan svo er ekki þá á félags- og vinnumarkaðsráðherra að vera hér á staðnum. Reynslan kennir okkur að síðustu fjögur skipti sem málið hefur verið lagt fram þá hefur það ekki gengið í gegn og við skulum nú ekki gefa okkur að það gerist í þetta skiptið.