153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:32]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Að heyra hæstv. dómsmálaráðherra tala hérna uppi í pontu, það er ekki nóg með að ráðherra vilji taka fram fyrir hendur þingsins þegar kemur að því að sinna sínum lögbundnu skyldum við veitingu ríkisborgararéttar, af því að hann er ósammála því, heldur ætlar hann líka að fara að stýra því hvernig þingmenn nálgast umræðu um frumvarp hans, hvernig spurninga við spyrjum og hvernig við eigum að spyrja og beita okkur og hvernig skilningur okkar er á frumvarpinu og hvaða mál eru tengd og ekki tengd. Stjórnlyndið sem er að eiga sér stað þarna er alveg gífurlegt. Svo er það kallað málþóf þegar stjórnarandstaðan kemur hér upp og biður eðlilega um að félags- og vinnumarkaðsráðherra taki þátt í umræðu um frumvarp sem fjallar um m.a. hans málaflokk. Er það óeðlileg krafa? Ráðherra þorir væntanlega ekki mæta, allt í lagi, hann ætlar ekki að koma. Það að við komum hér upp og biðjum réttilega um að ráðherra taki þátt í umræðunni og kvörtum yfir því að hæstv. dómsmálaráðherra svari ekki spurningum — hann gerir það ekki, hann snýr bara út úr, það er ekki heiðarlegt bein í líkama hans, því miður, hann snýr bara út úr allri umræðu — þá er það málþóf? Seldu mér annað.