153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Í b-lið 1. gr. frumvarps hæstv. dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga, segir, með leyfi forseta:

„Við 25. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Útlendingur telst ekki umsækjandi um alþjóðlega vernd þegar hann hefur fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi.“

Þetta ákvæði þýðir einfaldlega að ákveðin atriði í útlendingalögum er varða þjónustu heyra ekki lengur undir hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ég efast um að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sé meðvitaður um þessa grundvallarbreytingu á sínu hlutverki og það er mjög mikilvægt að fá hann hingað inn í þingsal í dag til þess að við getum átt við hann orðastað um þetta. Er hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra kunnugt um að það er verið að breyta fyrirkomulagi (Forseti hringir.) hans verkefnis með þessu ákvæði? Þetta er spurning sem við verðum að fá svar við, virðulegur forseti.