153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú ekki annað hægt en að nota tækifærið og ávarpa hér fullyrðingu sem kom m.a. fram hjá hv. ræðumanni, Loga Einarssyni, að fólk væri sett út á guð og gaddinn eftir að það hefði hlotið synjun. Það sem þingmaðurinn er þá að segja er: Við eigum bara að halda öllum hér áfram uppi á kostnað ríkisins, kostnað skattborgara, þótt þeir séu búnir að fara fyrir tvö stjórnsýslustig, fá synjun á því að þau eigi erindi í að fá vernd á Íslandi og þau geta bara verið hérna áfram. Til hvers er þá verið að fara í einhverja málsmeðferð? Þetta snýst náttúrlega um einhver mjög ólík sjónarmið okkar í þessari nálgun. Auðvitað á þetta fólk að fara úr landi og það er gert mjög mikið í því að hjálpa því úr landi. Það geta fylgt því, eins og ég kom inn á, framlög sem það getur tekið með sér til að koma undir sig fótunum þangað sem það er sent, til síns heima eða annarra staða.