153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:37]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mikilvægt frumvarp að ræða og þetta er mikilvægt mál, málaflokkur sem hefur greinilega vaxið ansi mikið á síðustu síðastliðnum árum og hefur verið mjög fyrirferðarmikill í samfélagsumræðunni síðastliðin misseri. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. þm. Loga Einarssonar um ákall um víðtækara samráð milli stjórnmálaflokka um breytingar á lögum um útlendinga, alþjóðlega vernd. Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um sama ákall. Ég tel að þegar við skoðum efnisatriði þessa frumvarps þá getum við auðveldlega náð samkomulagi um frumvarp sem myndi skapa sátt á þinginu og sátt í samfélaginu. Það er mjög mikilvægt að það sé sátt í samfélaginu um þennan mikilvæga málaflokk.

Ég á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og við fórum í heimsókn til Óslóar og Kaupmannahafnar undir forystu Bryndísar Haraldsdóttur, formanns nefndarinnar, til að kynna okkur mál flóttamanna og móttöku á flóttamönnum. Þar kom fram að það er sátt í Noregi varðandi þennan málaflokk, breið sátt, bæði í samfélaginu og líka meðal flokka. Í Danmörku kom fram í máli þingmanna að það er sátt milli stóru flokkanna í þessum málaflokki. Við eigum að hafa það að kláru og skýru markmiði að ná þessari sátt líka hér á landi. Við getum auðveldlega gert það ef við leggjumst öll á eitt og það er til mikils að vinna.

Ég tel að umræðan, ég hef fylgst aðeins með umræðunni í samfélaginu, hafi lent á sömu villigötum og venjulega og maður er nánast farinn að hlusta á umræðu um umræðu. Það er aldrei farið að tala um efnislega um málið, hvað sé undirliggjandi vandamál í kerfinu hjá okkur. Það er farið í skotgrafir og það eru ásakanir um rasisma og annað slíkt fram og til baka. Ég hef sagt að það sé mikilvægt að allir fái að tjá sig og taka þátt í lýðræðislegri umræðu en ekki að vera að saka aðra um annarlegan hugsunarhátt eða koma með dylgjur um það. Ég efast ekki um að allir vilji standa vel að verki og markmiðin eru skýr fyrir framan okkur.

Það sem hér er undir í þessu máli er að við framfylgjum alþjóðlegum skuldbindingum okkar varðandi móttöku á flóttamönnum. Ég tel, og flokkur minn telur, að við eigum að standa við þessar alþjóðlegu skuldbindingar á eins góðan hátt og við getum, taka vel á móti því fólki sem er flóttamenn og gera það á heimsmælikvarða. Ég þoli ekki orðalagið að vera best í heimi á Íslandi, og það á kannski ekki við í þessu, en við eigum að reyna að standa þannig að verki að við tökum utan um þetta fólk sem er að koma hérna, sem er komið hingað vegna ríkrar ástæðu, vegna ótta við að vera ofsótt vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þetta er skilgreiningin á flóttamanni. Þeir sem falla fyrir utan þessa skilgreiningu eiga ekki að fá alþjóðlega vernd, svo það liggi fyrir.

Það sem hefur átt sér stað að undanförnu er að þeim flóttamönnum sem hingað hafa komið til lands hefur fjölgað gríðarlega. Við fórum í morgun í allsherjar- og menntamálanefnd í Útlendingastofnun að Bæjarhrauni 18 þar sem er móttökustöð eða stöð þar sem tekin eru viðtöl við umsækjendur um hæli hér á landi og líka í móttökustöðina í Domus Medica við Egilsgötu. Ég vil nota tækifærið og þakka því starfsfólki sem tók á móti okkur og fræddi okkur um starfsemina. Maður fann fyrir mjög metnaðarfullum anda sem þar ræður ríkjum og þar er starfsfólk sem gerir sér grein fyrir mikilvægi starfa sinna. Það kom fram í glærukynningu hjá Útlendingastofnun að umsóknum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár. Ég get tekið sem dæmi að árið 2020 var fjöldi umsókna 654. Árið 2021 var hann 874. Árið 2022, núna 25. október, eru umsóknir orðnar 3.342. Þar af eru umsóknir frá Úkraínu 1.912. Ef við drögum fólk frá Úkraínu frá erum við með algjört met, 1.400 umsóknir.

Varðandi samsetningu umsækjendanna þá var eitt línurit sem sýndi það og ég sló þetta saman. Bara í ár hafa komið 720 manns frá Venesúela, 720 manns frá Venesúela hafa fengið alþjóðlega vernd. Eins og kom fram í umræðum hér fyrr í dag þá er það vegna ákvörðunar úrskurðarnefndar um flóttamenn. Þetta er misræmi miðað við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Skandinavíuríkin, eða Noregur og Danmörk, eru ekki að taka á móti sama magni hlutfallslega og við af fólki frá Venesúela.

Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að við stöndum við alþjóðlegar skuldbindingar okkar, að við höfum ekki lægri þröskulda, höfum ekki rýmri reglur, gerum ekki meira en að standa við skuldbindingar okkar. Af hverju er það svona mikilvægt? Vegna þess að ef við höfum rýmri reglur þá koma hlutfallslega miklu fleiri flóttamenn hingað en til annarra ríkja. Straumurinn mun þá liggja til Íslands, ef reglurnar hjá okkur eru ekki eins strangar og annars staðar og ekki samkvæmt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem ríkin í kringum okkur eru búin að koma sér saman um.

Það er aðeins komið inn á þetta í frumvarpinu og segir á blaðsíðu 16, með leyfi forseta:

„Útskýra má þessa miklu fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi, frá einstaklingum sem þegar höfðu hlotið slíka vernd í öðru Evrópuríki,“ — þarna er bara verið að tala um þá sem þegar hafa fengið vernd í öðru ríki — „með því að lagaumhverfi og framkvæmd þeirra hér á landi er frábrugðin löggjöf og viðmiðum nágrannaþjóða okkar og þá einkum að tvennu leyti. Annars vegar leggur ákvæði 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga þær skyldur á stjórnvöld að taka mál einstaklinga, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í öðru ríki, til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæla annars með því. Hins vegar hafa mörg verndarmál fengið efnismeðferð hér á landi þar sem stjórnvöld ná ekki að afgreiða og framkvæma ákvarðanir innan lögbundins frests.“

Þá fær það sjálfkrafa efnismeðferð. Það er 12 mánaða reglan. Þetta hefur verið kallað sérreglur. Ég tel að við eigum að hafa nákvæmlega sömu reglur á Íslandi og í Noregi.

Í frumvarpinu segir:

„Frumvarpið felur í sér nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga um útlendinga, nr. 80/2016, varðandi alþjóðlega vernd. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem eiga að auka skilvirkni og gæði innan stjórnsýslu með mannúðarsjónarmið í huga, samræma löggjöf og framkvæmd þessara mála við umgjörð annarra Evrópuríkja, einkum annarra Norðurlanda …“

Þegar ég skoða þetta mál er ég efins um að það sé raunverulega verið að samræma þetta algerlega við önnur Norðurlönd. Ég reyndi að spyrja að þessu áðan og ég reyndi líka að spyrja að því hvort þetta frumvarp tryggi að málsmeðferð umsækjenda hér á landi um alþjóðlega vernd sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það verður að liggja algerlega kristaltært fyrir.

Það eru ákveðin efnisákvæði hérna sem ég geri athugasemdir við. T.d. er í 2. gr. frumvarpsins talað um að ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki. Það er sem sagt sjálfkrafa kært. Þetta getur hljómað eins og mikil réttarbót, en hvað er verið að gera hérna? Jú, það er verið að stytta kæru, það er verið að taka kærufrestinn af einstaklingnum. Það er það sem er verið að gera, ekki neitt annað. Hann fær ekki umþóttunartíma sjálfur, þennan hálfan mánuð yfirleitt, 14 daga, til að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvort hann ætli að kæra eða ekki. Ég tel að þessi hálfi mánuður skipti nákvæmlega engu máli, ekki nokkru máli. Kærufrestur er mjög mikilvægur fyrir einstaklinginn til að ná að kynna sér gögnin, kynna sér úrskurðinn og taka svo sjálfstæða ákvörðun: Jú, ég ætla að kæra þetta mál. Og fá þá úrlausn æðra stjórnvalds.

Það segir beinlínis í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með það að markmiði að auka skilvirkni í málum umsækjenda í þessari stöðu er lagt til að ákvarðanir um synjun umsækjanda um efnismeðferð á grundvelli 36. gr. laganna sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála […]

Ákvæðinu er ekki ætlað að breyta framkvæmd að öðru leyti en að stytta málsmeðferðartíma og auka skilvirkni án þess að skerða réttarvernd aðila máls. Með það markmið í huga að stytta málsmeðferðartíma komu til skoðunar tveir kostir, annars vegar að stytta kærufrest og hins vegar að mæla fyrir um sjálfkrafa kæru.“

Þetta er alveg með ólíkindum. Ég hef starfað sem lögfræðingur í stjórnsýslu og annars staðar og þetta er í fyrsta sinn sem er verið að auka skilvirkni í kerfinu með því að kæra til æðra stjórnvalds, þannig að nú þarf æðra stjórnvald að fara að vinna þetta mál upp á nýtt og það á að auka skilvirkni með því. Þetta tel ég ekki vera við hæfi. Ég tel líka að þessi auka hálfi mánuður sem er verið að spara í tíma skipti engu máli. Það kom fram í morgun að fólk er átta vikur í móttöku og þessar málsmeðferðir taka mánuði.

Svo ég fjalli aðeins um það hvernig ástandið er í þessum málaflokki, sem ég tel að þetta frumvarp sé ekki að taka á með nægilegum hætti, þá eru í dag 729 mál til vinnslu á verndarsviði. Þannig er staðan. Það eru áskoranir. Það þarf að fjölga viðtalsherbergjum, það þarf að fjölga starfsfólki o.s.frv. Ég spurði sérstaklega og var sagt að venjulegt ástand væri að það væru 100–150 mál í vinnslu, en við erum með 729 mál í vinnslu. Að halda því fram að þetta frumvarp sé að fara að breyta einhverju varðandi ástand í þessum málaflokki er ekki rétt. Það bara er ekki rétt. Og það er heldur ekki að rétt að það sé að fara að auka skilvirkni að taka kærufrest af fólki og fara að kæra sjálfstætt.

Annað efnisatriði sem ég vil fjalla aðeins um er í 6. gr. í frumvarpinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi.“

Ég spurði hæstv. ráðherra að þessu og þá sagði hann að fólkið ætti að vera farið innan 30 daga. Ég er algjörlega sammála því að það ætti að vera farið innan 30 daga en það bara er ekki þannig. Það eru ekki allir farnir. Það sem er verið að gera hérna — mig langar raunverulega vita það sjálfur og ég spyr hæstv. ráðherra að því. Auðvitað þarf fólk að hafa í sig og á þó að það sé hérna í óþökk stjórnvalda. Málið er að þegar það er komin endanleg niðurstaða um synjun í Danmörku fer fólk sjálfviljugt. Ráðuneytisstarfsmaður í Danmörku sagði: Níu af hverjum tíu fara af fúsum og frjálsum vilja. Það er mjög gott. Það eru ákveðnir hvatar í kerfinu sem tryggja það. En svo er það hin þvingaða brottför. Að fara að reyna að búa til svona kerfi með þvingaðri brottför — ég er ekki að segja að ég sé algerlega á móti þessu. En málið er að þvinguð brottför er þvinguð brottför og ráðherra þarf að svara því hvernig sú þvingaða brottför fer fram. Hún felur í sér frelsissviptingu í sjálfu sér að vissu leyti og þá er spurningin: Hvernig á frelsissviptingin að fara fram? Jú, hún að fara fram með vægasta mögulega hætti til að ná því markmiði að einstaklingurinn fari úr landi. Ég veit að fræðilega er möguleiki á því að einstaklingur verði vistaður á Hólmsheiði í þvingaðri brottför og það er algerlega óásættanlegt að það úrræði sé notað, að það sé til staðar. Það er algjörlega óásættanlegt. Þannig þetta ákvæði getur staðið hérna en það verður að vera eitthvað annað í boði, einhver staður þar sem fólk getur gist, fengið húsaskjól og mat þangað til það fer úr landi. Það verður að vera til staðar. Stjórnvöld verða að sjá til þess. Það er ekki hægt að leggja þetta á sveitarfélögin.

Annað mál er 7. gr., um að endurtekinni umsókn skuli vísað frá. Það er í sjálfu sér rétt en þegar maður les þetta ákvæði 7. gr. er það svolítið skondið því að það á að taka málið aftur upp ef fram koma nýjar upplýsingar. Þetta er bara klassísk stjórnsýsla, ef það koma fram nýjar upplýsingar er hægt að endurtaka mál. Svo er lítið annað um það að segja.

8. gr., sem er mjög áhugaverð, lýtur að því sem hefur verið gagnrýnt mikið, að umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd í öðru ríki. Þá er þetta líka spurning um tengsl og annað slíkt. Þetta er það sem hefur verið gagnrýnt sem sérregla. Það verður náttúrlega að vera þannig að ef fólk kemur frá öðru ríki, með alþjóðlega vernd hjá öðru ríki, af hverju á þá Ísland að taka við fólki, flóttamönnum sem eru búnir að fá vernd í öðru ríki? Ég tel að svo eigi ekki að vera nema það séu mjög ríkar ástæður til þess. Þá getum við spáð í hvort það eigi að fara til Grikklands eða ekki og það er til dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um það, en þetta eru allt mjög einstaklingsbundnar ákvarðanir.

Ég tel líka að þetta ákvæði mætti skýra að mörgu leyti miklu betur og líka c-liðinn, varðandi það að taka skuli umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu (Forseti hringir.) í máli innan 12 mánaða. Þá er sagt að hann hafi ekki átt þátt í því. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega mikilvægt atriði.

Ég tel að þetta frumvarp (Forseti hringir.) nái ekki markmiði sínu nægjanlega. Við getum komið hérna eftir ár og umsóknum mun ekki hafa fækkað með þessu frumvarpi. Það mun ekki gerast.

Ég ítreka áskorun mína hér í byrjun sem er að við í allsherjar- og menntamálanefnd og fulltrúar stjórnmálaflokkanna (Forseti hringir.) sem erum þar náum sátt í málinu og skilum þessu verkefni frá okkur með miklum sóma fyrir Alþingi.