153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir ræðuna. Mig langar að byrja á að taka undir með hv. þingmanni að það er ekkert í þessu frumvarpi sem mun fækka umsóknum fólks hingað til lands, einfaldlega vegna þess að fólk leitar hingað til lands vegna þess að það er í mikilli neyð. Það er ástæðan fyrir gríðarlega auknum fjölda umsókna í ár og ég held að það leiki reyndar enginn vafi á því.

Það sem mig langaði kannski til að nefna er ákvæðið sem talað er um í greinargerð með frumvarpinu sem hv. þingmanni var tíðrætt um. Það er tillaga um að koma í veg fyrir að fólk sem hefur fengið vernd í öðrum ríkjum geti komið hingað til lands og fengið efnismeðferð. Það hefur verið í umræðunni að þetta sé ástæða fjölgunar umsókna og þeim þurfi að fækka með því að hætta þessu, þetta séu einhverjar sérreglur sem við erum með sem þurfi að breyta. Þá langar mig bara að benda á að (Forseti hringir.) þetta ákvæði hefur verið tekið út og þetta er að mínu viti eina sérreglan sem átti að taka út með þessu frumvarpi. Það er búið að taka hana út. (Forseti hringir.) Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann er: Telur hann að það hafi einhvers konar aðdráttarafl hingað að íslenskum stjórnvöldum sé gert að afgreiða umsóknir innan ákveðinna tímamarka?