153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem er að fara að jafna okkar reglur við alþjóðlegar skuldbindingar. En það hefur komið fram mikið í umræðunni að við séum að veita t.d. umsækjendum frá Venesúela svokallaða viðbótarvernd meðan önnur ríki séu að veita þeim dvalarleyfi af mannúðarástæðum, og viðbótarverndin sé svo miklu betri vernd og þess vegna komi þeir hingað. Þá vil ég byrja á að minnast á það að sjálf Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, verndari flóttamannasamningsins, hefur mælst til þess að fólk frá Venesúela sé ekki sent til baka. Hún er í rauninni að segja: Þau eru flóttamenn, þau eiga rétt á stöðu flóttamanns eða viðbótarvernd. Þá vil ég benda á það að dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á Íslandi er eitt ár. Því fylgir ekki atvinnuleyfi. Á öðrum Norðurlöndum gildir það t.d. í þrjú ár og því fylgir atvinnuleyfi á meðan viðbótarvernd hér er fjögur ár og henni fylgir atvinnuleyfi. Er í alvörunni verið að halda því fram í umræðunni að flóttamenn um allan heim séu með (Forseti hringir.) núansa í hverri löggjöf hvers lands svo mikið á hreinu og betur á hreinu en þingmenn þessara landa?