153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Ástæðan fyrir því að við erum að taka á móti fleiri flóttamönnum frá Venesúela hlutfallslega en önnur ríki er, samkvæmt umræðunni fyrr í dag, úrskurður eða ákvörðun kærunefndar útlendingamála. Ég held hins vegar að það gætu verið aðrar ástæður á bak við það, t.d. að það er einfaldara að fljúga hingað til Íslands en til Orlando eða Miami, einfaldara að fljúga til Íslands en annarra Norðurlanda. Það geta verið alls konar landfræðilegar ástæður fyrir því. En ég tel að við eigum að ganga úr skugga um það og ég hef ákveðnar efasemdir um þetta. Það þarf að rannsaka og finna ástæðuna fyrir því að við erum að fá svo miklu fleiri frá Venesúela og bæta þar úr. Ég tel óeðlilegt að við séum að taka á móti hlutfallslega miklu fleirum frá ákveðnu ríki en önnur Norðurlönd. Það er mín skoðun. Ég tel líka ekki rétt að við séum með miklu rýmri reglur en annars staðar. Ég er ekki að segja að hér séu rýmri reglur en ég vil fá að ganga úr skugga um það.