153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja hér loks efnislega umræðu um þetta frumvarp og fór hann mjög vel efnislega yfir sínar vangaveltur varðandi frumvarpið. Ég vil geta þess hér að þetta frumvarp er bara einn liður í mörgum í keðju útlendingamálanna sem við þurfum og erum að takast á við hér á fjölbreyttan hátt. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið rétt skilið hjá mér af efnislegri ræðu hans að hann sé sammála markmiðum frumvarpsins um að auka skilvirknina. Og hvort hann sé þá ekki líka sammála því sem hér hefur komið fram, alla vega af minni hálfu, um að löggjafinn hér eigi ekkert að vera öðruvísi en í nágrannalöndum okkar. Þessi tvö markmið, (Forseti hringir.) er hann ekki sammála þeim?