153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla einmitt að taka undir þakkir til hv. þingmanns fyrir að fara hér í efnislega umræðu og get lýst því yfir að við í allsherjar- og menntamálanefnd áttum mjög góða ferð til Noregs og Danmerkur og hv. þingmaður hefur einmitt sýnt mikinn vilja til að ná breiðri samstöðu um málið. Ég er sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að við eigum að horfa til Noregs, ég held að það sé bara mjög góð fyrirmynd. Það er mín afstaða að við séum að fullu að uppfylla okkar skyldur varðandi alþjóðasamninga og meira til. Svo þurfum við bara að ræða hversu mikið og hvar við ætlum að gera það því að ég held að það sé ljóst að svo er hér.

Það sem er í rauninni verið að gera í þessu frumvarpi lýtur fyrst og fremst að skilvirkni. Eitt af því er til að mynda þetta með sjálfstæðan kærurétt eða sjálfkrafa kærurétt. Skil ég hv. þingmann rétt, að hann sé bara hreinlega ósammála því? Því að það kemur fram í greinargerðinni að almennt er kæruhlutfallið 90–98% þannig að þetta er augljóslega leið til að flýta ferlinu og auka skilvirknina þar af leiðandi. (Forseti hringir.) Og þá er líka ágætt að muna að við hér á Íslandi erum að veita talsmannaþjónustu, þ.e. löglærðan fulltrúa, (Forseti hringir.) lögfræðing sem fylgir umsækjanda um alþjóðlega vernd í gegnum bæði stigin. Það er til að mynda ekki í Noregi, sem við viljum horfa til. (Forseti hringir.) Það er bara þegar kemur að kæruhliðinni.