153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum algerlega sammála um að við eigum að hafa þetta svipað og í Noregi og ná víðtækri sátt um málið, sem ég tel vera vel mögulegt ef við förum að skoða efnisleg atriði þessa frumvarps.

Varðandi sjálfkrafa kæru: Þetta er í 2. gr., það kemur skýrlega fram varðandi 2. gr. að til að stytta málsmeðferðartímann og auka skilvirkni standi tvennt til boða; að stytta kærufrestinn eða hafa sjálfkrafa kæru. Ég tel að það að stytta kærufrestinn, þetta er hálfur mánuður, 14 dagar — ég tel að þessi hálfi mánuður skipti raunverulega ekki miklu máli í heildarsamhenginu um að auka skilvirkni. Ég tel að það að hafa sjálfkrafa kæru, að búa til sjálfkrafa kærukerfi til þess að taka kærufrestinn af einstaklingunum — það er nánast verið að ganga á, ég segi ekki að gengið sé á mannréttindi en það nálgast það. Einstaklingur á rétt til að kæra til æðra stjórnvalds, (Forseti hringir.) það stendur í mannréttindasáttmálanum. Hann á réttinn, ekki stjórnvöld. Hann á réttinn sjálfur. (Forseti hringir.) Það er verið að taka þennan rétt til að kæra af einstaklingnum.