153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:12]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég held að við munum fara betur yfir þetta í nefndinni, hvort það sé skynsamlegra að hafa það bara kærufrest og stytta hann eða fara í sjálfkrafa kæruferli eins og þarna er lagt til. Hugmyndin á bak við það snýst auðvitað um skilvirkni.

Varðandi þessa svokölluðu 30 daga, eins og við lýsum því, bara fyrir fólk sem kann að vera að fylgjast með þarna úti, þá erum við að tala um að aðilar sem hafa komið hér og sótt um vernd, fengið neitun, kært til kærunefndar og fengið líka neitun þar hafi þá að hámarki 30 daga til að koma sér úr landi vegna þess að þeir hafa ekki uppfyllt þau skilyrði sem eru til þess fallin að hljóta þessa vernd. Ég skynja umræðuna hjá hv. þingmanni og ég held að hv. þingmaður sé að vísa í það sem önnur Norðurlönd eru með, og að ég held öll Evrópuríki, þar sem við erum með sérstaka búsetu fyrir þá sem hafa fengið synjun. Mig langar því að spyrja: Er það það sem hv. þingmaður er að tala fyrir? Því að það er nú kannski sambærilegt því sem hæstv. ráðherra hefur líka nefnt í umræðunni um útlendingamál í stóra samhengi hlutanna.