153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið. Þetta er mjög góð spurning. Ég veit að Norðmenn eru með svokallaðar „transit“-búðir fyrir fólk sem er í þvingaðri brottför. Ég tel að við þurfum ekkert endilega að fara þangað. Ég tel að með því að taka réttindi eftir 30 daga sé verið að þvinga fólk, reyna að henda því út á guð og gaddinn, það verði að sjá um sig sjálft ef það ætlar að vera hérna í óþökk stjórnvalda. Ég tel að íslensk stjórnvöld þurfi að bjóða upp á eitthvað, fæði, klæði og húsnæði, fyrir þetta fólk ef það vill ekki fara nema með þvingaðri brottför. Þvinguð brottför þýðir að viðkomandi er frelsissviptur, þvingaður úr landi. Það er bara þannig. Ég spurði sérstaklega að þessu í Noregi, hjá NOAS. Þau sögðu: Já, það er bara hluti af kerfinu. (BHar: Það er bara sátt um það þar.) Það er bara sátt um það þar, svo lengi sem málsmeðferðin er réttlát innan kerfisins, og hvort það séu búðir eða ekki — ég veit að það verða sprengingar í samfélaginu þegar maður segir þetta en erlendis, bæði í Noregi og Danmörku, er þetta bara hluti af kerfinu. (Forseti hringir.) Í Sandholm var girðing í kring, fólk gat alveg farið út og það var ekkert mál, en það mátti ekki hver sem er fara inn. (Forseti hringir.) Ég tel að við eigum að hafa þvingaða brottför, hafa góða málsmeðferð með vægasta mögulega hætti. Ég efast um að það sé þannig í dag. (Forseti hringir.) Það er mín skoðun og ég tel að við þurfum að sjá um fólkið allan tímann meðan það dvelur á Íslandi.