153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hver útgáfan er af þeirri glæpastarfsemi sem viðgengst í tengslum við þetta kerfi skiptir kannski ekki öllu máli. Það sem skiptir máli hér er að í mörgum tilfellum er þetta fólk fórnarlömb sem þarf að taka utan um. Það er m.a. þess vegna sem ég var að leggja til og setja inn í umræðuna, þó að það verði ekki hrist fram úr erminni, að við hefðum búsetuúrræði fyrir þetta fólk þegar það kemur til landsins með sama hætti og Norðurlandaþjóðirnar gera. Taka á móti þeim þannig að við náum að halda utan um þau, náum að kortleggja stöðu þeirra og kynnast fólkinu betur þannig að við getum betur mætt þörfum þess.

Þær tölur sem ég er með eru þær tölur sem dómsmálaráðuneytið hefur frá þeim stofnunum sem það leitar til til að sækja sér tölfræðilegar upplýsingar. Þar kemur fram að það eru 89,3 milljónir manna á flótta. 53 milljónir af þeim eru á flótta í eigin landi og 4,6 milljónir eru í leit að vernd. Það er ágætt að hafa þessar tölur á hreinu. Talandi um gervihjónabönd og eitthvað slíkt, ég veit ekki hvert hv. þingmaður er kominn. Það hefur ekkert með þetta frumvarp að gera.