153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:34]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu hér en mig langar aðeins að ræða við þingmanninn um það andrúmsloft sem ríkir varðandi þetta og hvernig verið er að nálgast umræðuna. Það er verið að tala um að verið sé að misnota kerfið og við séum hlutfallslega að taka við miklu fleiri flóttamönnum og að verið sé að koma inn á fölsuðum vegabréfum. Ég vil kannski aðeins staldra við þessi fölsuðu vegabréf. Það hefur verið rætt um að það sé fjöldi Sýrlendinga að koma inn í gegnum Venesúela eða í gegnum útgefin vegabréf frá Venesúela. Mér hefur verið sagt, ég þekki ekki uppbygginguna í Venesúela, að það búi bara fjöldi Sýrlendinga í Venesúela. Fyrir utan það held ég að Sýrlendingar séu í sjálfum sér ekkert of sælir í þeim aðstæðum sem þeim er boðið upp á í sínu eigin heimalandi.

Lokapunkturinn er þessi: Er það refsivert að koma inn á fölsuðu vegabréfi ef þú ert flóttamaður?