153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:36]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat ekki heyrt annað á orðum forsvarsmanns frá Rauða krossinum á Íslandi í útvarpsviðtali í gær að það væri refsilaust að koma á fölsuðu vegabréfi ef um flóttamenn er að ræða.

Hv. þingmaður nefndi líka þann mikla fjölda sem er að koma frá Úkraínu og við öll buðum velkominn til landsins. Við opnuðum landið okkar fyrir þessum hóp og vildum svo sannarlega styðja við þennan hóp sem er í mikilli neyð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því: Er núna verið að nýta þá stöðu til að skerða réttindi annarra hópa sem koma inn til landsins? Ég get ekki séð að Palestínumenn séu í góðri stöðu. Ég get ekki séð að Kúrdar séu í góðri stöðu, bara svo dæmi séu tekin. Það er fullt af fólki úti um allan heim, (Forseti hringir.) sem hefur flúið frá sínu heimalandi eða sínu heimili, sem þarf á aðstoð að halda.