153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:39]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hans ræðu. Mig langar að varpa spurningu til hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar, því að hann talar um höfðatölu. Hann talar um að við getum ekki alltaf miðað við höfðatölu, að við vinnum allt þegar við setjum hlutina í samhengi við höfðatölu, þá vinnum við alla keppni og það er nokkuð til í því. Það verður ekki hjá því komist að bera saman þann fjölda sem við erum að taka á móti við það sem þau ríki sem eru í kringum okkur taka á móti, ríki sem við viljum og erum að bera okkur saman við í öllu tilefni, hvort sem það er efnahagslega eða eitthvað annað. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki að hér sé eitthvert hámark í þeim fjölda sem við getum tekið á móti svo sómi sé að?